Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum 15-22 ára fór fram á Selfossvelli við góðar aðstæður um síðustu helgi. HSK/Selfoss sendi sameiginlegt lið til keppninnar og endaði í 3. sæti, örfáum stigum á eftir Breiðablik en ÍR-ingar unnu öruggan sigur.
HSK/Selfoss sigraði stigakeppnina í þremur flokkum; 16-17 ára pilta, 16-17 ára stúlkna og 15 ára pilta.
Eva María setti mótsmet
Eva María Baldursdóttir setti glæsilegt mótsmet í hástökki í flokki 16-17 ára stúlkna en hún sigraði með stökk upp á 1,70 m.
Í sama flokki vann Hildur Helga Einarsdóttir það frábæra afrek að verða þrefaldur Íslandsmeistari. Hún kastaði spjóti 41,77 m, kringlunni þeytti hún 30,06 m og kúlunni varpaði hún 12,29 m.
Dagur Fannar fimmfaldur meistari
Dagur Fannar Einarsson sýndi það hversu fjölhæfur og frábær íþróttamaður hann er þegar hann vann það einstaka afrek að verða fimmfaldur Íslandsmeistari í flokki 16-17 ára pilta. Hann keppti í níu greinum á mótinu þrátt fyrir að vera nýbúinn að keppa á NM í tugþraut um síðustu helgi.
Dagur Fannar sigraði í 400 m hlaupi á tímanum 53,02 sek, 110 m grindahlaupi á tímanum 15,35 sek, í langstökki stökk hann 6,38 m og kringlunni kastaði hann lengst allra, eða 40,28 m.
Þá var hann einnig í boðhlaupssveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×100 m hlaupi á nýju HSK meti, 46,41 sek. Með Degi í sveitinni voru Jónas Grétarsson, Unnsteinn Reynisson og Sindri Freyr Seim Sigurðsson. Þeir bættu fyrra met frá árinu 2015 um 0,56 sekúndur.
Sindri Freyr bætti tveimur öðrum Íslandsmeistaratitlum í safnið en hann sigraði í 100 m og 200 m hlaupi 16-17 ára pilta. Hann hljóp 100 m á 11,44 sek og 200 m á 22,71 sek.
Jónas Grétarsson varð einnig Íslandsmeistari í þrístökki 16-17 ára pilta með því að stökkva 11,62 m.
Sjö gull í 15 ára piltaflokki
Haukur Arnarson varð þrefaldur Íslandsmeistari í flokki 15 ára pilta. Hann sigraði í langstökki og þrístökki, stökk 5,83 m í langstökkinu og 11,98 m í þrístökkinu. Þá var hann í sveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×100 m boðhlaupi á tímanum 50,89 sek. Með Hauki í boðhlaupssveitinni voru Goði Gnýr Guðjónsson, Óskar Snorri Óskarsson og Brynjar Logi Sölvason.
Goði Gnýr varð þrefaldur meistari en hann sigraði einnig í 1.500 og 3.000 m hlaupi 15 ára pilta. Hann hljóp 1.500 metrana á 4:52,62 mín og 3.000 metrana á 11:21,07 mín.
Brynjar Logi bætti við Íslandsmeistari í hástökki 15 ára pilta, stökk 1,67 m.
Benjamín Guðnason keppti einnig í flokki 15 ára pilta og varð hann Íslandsmeistari í sleggjukasti er hann kastaði sleggjunni 33,42 m og bætti sinn besta árangur.
Methlaup hjá Guðbjörgu Jónu
Eitt Íslandsmet í fullorðinsflokki var sett á mótinu en Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR, bætti eigið met í 200 m hlaupi um 0,02 sekúndur þegar hún hljóp á 23,45 sek.