Leikmannamál eru nú óðum að skýrast fyrir komandi leiktíð í 1. deildinni hjá karlaliði Hamars í körfuknattleik.
Síðastliðinn fimmtudag skrifuðu níu leikmenn undir hjá Hamri auk þess sem Ragnar Nathanelsson hafði áður skrifað undir og Svavar Páll Pálsson hafði gert munnlegt samkomulag um að leika áfram með Hamri.
Þeir leikmenn sem nú skrifuðu undir eru flestir uppaldir Hamarsstrákar en auk þeirra bætast við Mýrdælingurinn Björgvin Jóhannesson sem lék með Þór og FSu í fyrra og Selfyssingurinn Halldór Gunnar Jónsson sem lék með Skallagrími í fyrra. Auk þessara leikmanna binda Hamarsmenn vonir við að Snorri Þorvaldsson og Kjartan Kárason skrifi undir fljótlega, en þeir eru að hugsa sinn gang varðandi vinnu og skóla.
Eins og sunnlenska.is hefur greint frá mun Lárus Jónsson þjálfa báða meistaraflokka félagsins. Daði Steinn Arnarsson verður yfirþjálfari allra yngri flokka auk þess að aðstoða Lárus með karlaliðið og Oddur Benediktsson mun aðstoða Lárus við þjálfun kvennaliðsins.