Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson stýrði norska kvennalandsliðinu í handbolta til sigurs á Evrópumeistaramótinu í kvöld í fimmta skiptið.
Noregur vann Danmörku í frábærum leik. Danmörk leiddi 12-15 í hálfleik en þær norsku sneru leiknum sér í vil í seinni hálfleik og unnu glæsilegan 27-25 sigur.
Afrekaskrá Þóris með norska landsliðið heldur því áfram að lengjast en þetta eru níundu gullverðlaun hans sem aðalþjálfari norska liðsins.
Þórir tók við liðinu í apríl 2009 og síðan þá hefur liðið unnið gullverðlaun á EM 2010, HM 2011, Ólympíuleikunum 2012, EM 2014, HM 2015, EM 2016, EM 2020, HM 2021 og nú EM 2022. Þá á liðið hans Þóris einnig silfurverðlaun frá EM 2012 og HM 2017 og bronsverðlaun frá HM 2009 og Ólympíuleikunum 2016.