Númer klippt af sex bílum

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Síðasta vika var nokkuð róleg hjá lögreglunni á Suðurlandi en tæplega 400 mál eru skráð í dagbókina, mis stór.

Alls voru 28 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt. Einn þeirra var mældur á 143 km/klst hraða á 90 km vegi í Flóanum á laugardaginn og er grunaður um að hafa verið ölvaður við aksturinn að auki. Þrír aðrir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um ölvunarakstur í síðustu viku og einn grunaður um að vera undir áhrifum fíkniefna.

Af þeim sem stöðvaðir voru fyrir hraðakstursbrot voru flestir á ferðinni í Árnessýslu og helmingur þeirra, eða fjórtán ökumenn, voru erlendir ferðamenn.

Lögreglan var einnig á ferðinni með klippurnar og tók skráningarnúmerin af sex bílum. Fimm þeirra voru ótryggðir og sá sjötti átti að fara í bifreiðaskoðun árið 2020.

Fyrri greinFagleg ráðning bæjarstjóra
Næsta greinSaman eru okkur allir vegir færir