Stokkseyringurinn Númi Snær Katrínarson varð í 24. sæti í karlaflokki á heimsleikunum í Crossfit sem lauk í dag í Los Angeles.
Númi stimplaði sig inn í mótið með frábærri byrjun en hann var í 3. sæti eftir þrjár greinar á fyrsta keppnisdegi á miðvikudag. Þá var hann lagður inn í vökvagjöf á sjúkrahús vegna ofþornunar, en þrátt fyrir það hélt hann sínu striki og varð að lokum í 24. sæti sem verður að teljast frábær árangur.
Númi Snær er 32 ára gamall og býr í Stokkhólmi ásamt unnustu sinni, Elínu Jónsdóttur. Hann hefur æft Crossfit í á þriðja ár og starfar nú sem yfirþjálfari í Crossfitstöð í Stokkhólmi. Númi hefur sigrað á sænska meistaramótinu í Crossfit undanfarin tvö ár.