Nýja höllin heitir Selfosshöllin

Í Selfosshöllinni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Nýja fjölnota íþróttahúsið sem er staðsett á Selfossvelli mun bera heitið Selfosshöllin.

Til stóð að halda veglega opnunarhátíð í nóvember, þar sem nýja nafnið yrði formlega afhjúpað en vegna samkomutakmarkana hefur ekki verið hægt að halda viðburðinn. Því var brugðið á það ráð að afhjúpa nafn Selfosshallarinnar með fréttatilkynningu sem birt er á heimasíðu sveitarfélagsins Árborgar.

Stefnt er á opnunarhátíð um leið og færi gefst síðar í vor, eða sumar, í samstarfi við Umf. Selfoss og fleiri félagasamtök í sveitarfélaginu.

Nafnið er til komið eftir vinnu starfshóps sem fékk það hlutverk að velja nafn á húsið. Hópurinn leitaði til íbúa og áhugasamra í gegnum samráðsgátt og var öllum opið að senda inn hugmyndir.

Selfosshöllin var tekin í notkun í september og hefur nýst vel í vetur. Auk æfinga knattspyrnu- og frjálsíþróttadeilda Selfoss er húsið nýtt af Knattspyrnuakademíu Íslands og frjálsíþróttaakademíu FSu en auk þess nýta húsið dagforeldrar, leik- og grunnskólar, heilsueflingarteymi 60+, Geðheilsuteymi HSU og fjöldi íbúa sem ganga eða hlaupa í höllinni.

Fyrri greinListi óháðra undirbýr framboð í Ölfusi
Næsta greinHeiðin opnuð eftir 44 klukkustunda lokun