Hamar tapaði 0-2 fyrir Víkingi Ólafsvík í 2. deild karla í knattspyrnu á Grýluvelli í kvöld.
Hamarsmenn léku manni fleiri síðustu 57 mínútur leiksins en tókst þrátt fyrir það ekki að nýta liðsmuninn. Gestirnir voru sterkari í fyrri hálfleik og eftir að þeir misstu leikmann af velli með tvö gul spjöld voru þeir skynsamir í vörn og sókn.
Það var þó heldur súrt fyrir Hamarsmenn að fá á sig mark rétt undir lok fyrri hálfleiks. Þorsteinn Már Ragnarsson kom þá Víkingum yfir og hann er sjálfsagt enn í sturtu að reyna að þvo af sér rangstöðulyktina. Þrátt fyrir að markið væri umdeilt var forysta Víkinganna verðskulduð í hálfleik.
Hamarsmenn sóttu meira í síðari hálfleik en gekk ekkert að skapa sér færi. Gestirnir lágu aftarlega og reyndu að sækja hratt á framliggjandi lið Hamars. Seinni hálfleikur var markalaus allt fram á 80. mínútu þegar Víkingurinn Helgi Óttarr Hafsteinsson hirti upp slaka sendingu Ágústs Örlaugs Magnússonar úr vörn Hamars. Helgi lék inn í teig og skoraði örugglega framhjá Birni Aðalsteinssyni í marki Hamars.
Víkingur er því áfram á toppi deildarinnar með 20 stig en Hamar er enn í 10. sæti með 7 stig.