Óbreytt staða á okkar mönnum

Annar keppnisdagurinn í Rally Reykjavík fór að mestu leyti fram á Suðurlandi í dag. Sunnlensku keppendurnir eru í harðri baráttu í sínum flokkum.

Þór Líni Sævarsson og Sigurjón Þór Þrastarson eru ennþá í 4. sæti í heildarkeppninni en þeir óku jafnt og þétt og nokkuð áfallalaust í dag. Þeim tókst reyndar að velta bílnum á næstsíðustu leið dagsins en töpuðu þrátt fyrir það litlum tíma þar sem áhorfendur veltu á hjólin aftur.

Þá eru bræðurnir Heimir Snær og Halldór Gunnar Jónssynir með góða forystu í jeppaflokknum en þeir eru í 11. sæti í heildarkeppninni. Þeir bræður töpuðu reyndar tíma þar sem þeir lentu í að sprengja tvö dekk og keyrðu síðan bremsulausir nánast allan Dómadal, rétt um 23 kílómetra.

Örn Dali Ingólfsson og Óskar Jón Hreinsson reka svo lestina á Trabant og eru þeir nú rúmum einum og hálfum tíma á eftir fyrsta bíl. Systkinin Daníel og Ásta Sigurðarbörn hafa sem fyrr forystu í keppninni.

Lokakeppnisdagurinn er á morgun, laugardag, en þá verður meðal annars ekið um Hengil, Tröllháls og Kaldadal. Keppninni lýkur um miðjan dag á morgun.


Engar bremsur! Heimir og Halldór á ferð um Landmannaleið. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinSilja Dögg: Skyggni ágætt – bjart framundan
Næsta greinÍslenski bærinn opnar formlega í dag