Oddaleikur á Selfossi á þriðjudaginn

Eyþór Lárusson, þjálfari Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði naumlega gegn ÍR í öðrum leik liðanna í sex liða úrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta í Breiðholtinu í dag.

Lokatölur urðu 23-22 ÍR í vil og er staðan í einvíginu því 1-1. Liðin mætast í oddaleik á Selfossi á þriðjudagskvöld.

Selfyssingar voru sterkari í upphafi leiks og komust í 3-8 og munurinn varð mest sex mörk í fyrri hálfleik. Staðan í leikhléi var 9-14.

Munurinn hélst í fimm mörkum fyrstu tólf mínútur seinni hálfleiks en þá fór allt í skrúfuna hjá Selfyssingum. ÍR-ingar tóku Hörpu Valey Gylfadóttur úr umferð og við það riðlaðist sóknarleikur þeirra vínrauðu mikið og skriðþunginn í leiknum færðist yfir til ÍR.

Heimakonur jöfnuðu 17-17 aðeins sex mínútum seinna og jafnt var á öllum tölum næstu mínútur. ÍR skoraði sigurmarkið af vítalínunni þegar rúm mínúta var eftir og Selfyssingum tókst ekki að nota lokasóknina til þess að jafna.

Hulda Dís Þrast­ar­dótt­ir var markahæst Selfyssinga með 6 mörk, Katla María Magnús­dótt­ir skoraði 5, Harpa Valey Gylfa­dótt­ir 4, Sara Dröfn Rík­h­arðsdótt­ir og El­ín­borg Katla Þor­björns­dótt­ir 3 og Arna Krist­ín Ein­ars­dótt­ir skoraði 1 mark.

Ágústa Tanja Jó­hanns­dótt­ir varði 13 skot í marki Selfoss.

Fyrri greinSelfoss úr leik í bikarnum
Næsta greinHamar í vænlegri stöðu