Selfoss tapaði naumlega gegn ÍR í öðrum leik liðanna í sex liða úrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta í Breiðholtinu í dag.
Lokatölur urðu 23-22 ÍR í vil og er staðan í einvíginu því 1-1. Liðin mætast í oddaleik á Selfossi á þriðjudagskvöld.
Selfyssingar voru sterkari í upphafi leiks og komust í 3-8 og munurinn varð mest sex mörk í fyrri hálfleik. Staðan í leikhléi var 9-14.
Munurinn hélst í fimm mörkum fyrstu tólf mínútur seinni hálfleiks en þá fór allt í skrúfuna hjá Selfyssingum. ÍR-ingar tóku Hörpu Valey Gylfadóttur úr umferð og við það riðlaðist sóknarleikur þeirra vínrauðu mikið og skriðþunginn í leiknum færðist yfir til ÍR.
Heimakonur jöfnuðu 17-17 aðeins sex mínútum seinna og jafnt var á öllum tölum næstu mínútur. ÍR skoraði sigurmarkið af vítalínunni þegar rúm mínúta var eftir og Selfyssingum tókst ekki að nota lokasóknina til þess að jafna.
Hulda Dís Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 6 mörk, Katla María Magnúsdóttir skoraði 5, Harpa Valey Gylfadóttir 4, Sara Dröfn Ríkharðsdóttir og Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 3 og Arna Kristín Einarsdóttir skoraði 1 mark.
Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 13 skot í marki Selfoss.