Öflugur útisigur Selfyssinga – Hamar tapaði naumlega

Everage Richardson skoraði 22 stig fyrir Hamar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann frábæran sigur á Vestra á Ísafirði í 1. deild karla í körfubolta í kvöld en á sama tíma tapaði Hamar naumlega á heimavelli gegn Hetti.

Vestramenn skoruðu sjö fyrstu stigin gegn Selfossi og höfðu frumkvæðið lengst af fyrri hálfleik. Selfoss minnkaði muninn í 2. leikhluta og staðan var 43-42 í leikhléi.

Selfyssingar voru sterkir í 3. leikhluta og byggðu hægt upp forskot sem varð mest sex stig. Vestramenn voru ekki hættir og þeir komust fjórum stigum yfir þegar tvær og hálf mínúta var eftir, 70-66. 

Selfyssingar voru hins vegar harðákveðnir í að fá eitthvað út úr þessum leik og jöfnuðu og í kjölfarið setti Chris Caird niður risastóran þrist þegar 37 sekúndur voru eftir af leiknum, 71-74. Lokasekúndurnar voru æsispennandi en taugar Selfyssinga voru sterkar og þeir náðu að landa 74-77 sigri.

Michael Rodriguez var stigahæstur hjá Selfossliðinu með 18 stig og 9 fráköst. Snjólfur Stefánsson skoraði 13 stig og tók 9 fráköst og þeir Christopher Caird og Arminas Kelmelis skoruðu báðir 11 stig.

Slæm byrjun hjá Hamri
Hamar byrjaði illa í leiknum og Hattarmenn náðu góðu forskoti strax í 1. leikhluta. Hamar gerði áhlaup undir lok leikhlutans en Höttur stóð það af sér og bætti í í upphafi 3. leikhluta. Staðan í hálfleik var 49-58.

Seinni hálfleikurinn var spennandi en þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir náði Hamar fyrst að jafna, 88-88, og í kjölfarið náðu Hvergerðingar fjögurra stiga forskoti. Hamar var skrefinu á undan á lokamínútunum en missti forskotið í blálokin og Höttur skoraði þrjú síðustu stigin þegar sex sekúndur voru eftir.

Everage Richardson átti frábæran leik fyrir Hamar, skoraði 34 stig, sendi 12 stoðsendingar og tók 7 fráköst. Marko Milekic skoraði 15 stig og tók 12 fráköst og Gabríel Sindri Möller skoraði 14 stig.

Hamar er nú í 5. sæti deildarinnar með 12 stig en Selfoss einu sæti neðar með 8 stig.

Fyrri greinÞórsarar völtuðu yfir Hauka
Næsta greinHeiðrún Anna og Aron Emil valin í landsliðið í golfi