FSu körfubolti mun bjóða upp á ókeypis sumarnámskeið í körfubolta en Valur Ingimundarson mun stjórna þeim.
Eins og Sunnlenska.is greindi frá í síðustu viku hefur Valur verið ráðinn aðalþjálfari Körfuknattleiksfélags FSu. Starf Vals mun felast í þjálfun allra aldursflokka innan félagsins.
Námskeiðin eru fyrir krakka á aldrinum 8-15 ára og hefjast í kringum um 20. júní. Með stuðningi fyrirtækja á Selfossi hefur tekist að fjármagna námskeiðin þannig að þátttaka í þeim verður ókeypis fyrir iðkendur.
„Valur er einn allra reyndasti körfuboltaþjálfari á Íslandi og hafa lið undir hans stjórn oftsinnis unnið bikar og Íslandsmeistaratitla og er því mikill fengur að fá hann til að leiða áfram þá miklu uppbyggingu sem á sér stað innan FSu körfubolta,“ sagði Finnbogi Magnússon, formaður félagsins, í samtali við Sunnlenska.is.