Íþróttafélagið Suðri átti tvo keppendur á Íslandsmóti fatlaðra í frjálsum íþróttum innanhúss sem fram fór í Kaplakrika í Hafnarfirði um síðustu helgi.
Það voru þær Ólafía Ósk Svanbergsdóttir og Sigríður Sigurjónsdóttir og náðu þær báðar góðum árangri.
Ólafía Ósk vann silfur í kúluvarpi með 3 kg kúlu í flokki T 35-38, kastaði 9,08. Ólafía tvíbætti eigið HSK met í kúlunni, kastaði fyrst 8,70 m sem var bæting og lengsta kastið kom svo í annarri tilraun.
Sigríður vann bronsverðlaun með 4 kg kúlu í kúluvarpi kvenna F 20, kastaði 7,20 m.
Fleiri Sunnlendingar tóku þátt í mótinu undir merkjum annarra félaga. Þar ber hæst árangur Huldu Sigurjónsdóttur sem bætti eigið Íslandsmeti í kúluvarpi kvenna í flokki F 20. Hulda, sem keppir fyrir Ármann, kastaði 10,33 m.
Ágúst Þór Weaber, sem keppir fyrir Eik, vann gull í 400 m hlaupi og langstökki, silfur í kúluvarpi og brons í 60 m hlaupi í flokki F 20.