Ólafur Elí sæmdur gullmerki ÍSÍ

Ólafur Elí Magnússon. Ljósmynd/Viktor Örn Guðlaugsson

Ólafur Elí Magnússon á Hvolsvelli var sæmdur gullmerki Íþrótta- og ólympíusambands Íslands í síðustu viku fyrir ómetanleg sjálfboðaliðastörf í þágu íþróttanna.

Viðurkenninguna fékk hann afhenta á viðburðinum Íþróttamaður ársins og sama kvöld var Íþróttaeldhugi ársins 2023 útnefndur en Ólafur Elí var einn þriggja tilnefndra þar.

Ólafur Elí hefur starfað fyrir Íþróttafélagið Dímon frá stofnun félagsins en hann hefur um langt skeið unnið ómetanlega að íþróttastarfi barna og ungmenna í Rangárþingi eystra og verið óþreytandi í að gefa tíma sinn til þeirra málefna hvort sem er í gegnum íþróttafélagið Dímon eða á öðrum vettvangi.

Hann hefur í um 30 ár staðið fyrir æfingum í mörgum íþróttagreinum og hvatt börn og unglinga í félaginu til að taka þátt í mótum. Ólafur hefur fylgt keppendum á mót og ekki talið það eftir sér að keyra þá um allt land. Hann hefur prívat og persónulega staðið fyrir íþróttaskóla fyrir tvo elstu árganga leikskólans í yfir 25 ár og þannig stuðlað að áframhaldandi íþróttaiðkun þeirra, endurgjaldslaust. Ólafur hefur setið í aðalstjórn Íþróttafélagsins Dímonar um margra ára skeið auk þess sem hann á sæti í stjórnum borðtennis-, frjálsíþrótta- og glímudeilda félagsins.

Fyrri greinML úr leik í Gettu betur
Næsta grein„Þetta er minn stærsti draumur“