Ólafur Oddur Sigurðsson, Laugdælum, var skjaldarhafi Skarphéðins í fjórða sinn þegar 88. Skjaldarglíma Skarphéðins var haldin á Hvolsvelli á dögunum.
Þrjátíu og sjö keppendur tóku þátt í mótinu frá fjórum félögum á Suðurlandi. Keppendur í skjaldarglímum Skarphéðins og Bergþóru voru fjórir í hvorri.
Samhygðarkonan Marín Laufey Davíðsdóttir varði titil sinn sem skjaldarhafi Bergþóru. Marín keppti nú fyrir Þjótanda, hið sameinaða félag Samhygðar, Vöku og Baldurs. Næst henni kom félagi hennar Guðrún Inga Helgadóttir og þriðja varð Vilborg Rún Guðmundsdóttir Umf. Bisk.
Marín hafði yfirburði og svipti keppinautum sínum í gólfið á hábrögðum enda bæði hávaxin og stælt. Hún er nú glímudrottning Íslands og mun freista þess að verja titil sinn á Íslandsglímunni á Ísafirði eftir mánuð.
Til leiks í Skjaldarglímu Skarphéðins mættu tveir langsterkustu glímumenn héraðsins, þeir Stefán Geirsson Þjótanda, áttfaldur skjaldarhafi Skarphéðins, og formaður GLÍ Ólafur Oddur Sigurðsson, sem keppir fyrir Laugdæli. Báðir eru hávaxnir og sterklegir en Ólafur hefur þreknast talsvert undanfarið og vegur nú 118 kg. Stefán taldist vera 92 og sýndist grannvaxinn við hlið Ólafs.
Fallþungi Ólafs varð Stefáni að falli því þegar hann freistaði þess að svipta Ólafi í klofbragð, hrasaði hann og féll og Ólafur á hann ofan. Þá voru þeir búnir að glíma eina lotu með allmiklum sviptingum og mátti hvergi á milli sjá en úrslitaglíman fór á þennan veg. Þriðji varð Hafsteinn Kristinsson á Þverlæk og þótti glíma vasklega.