Selfyssingurinn Olga Bjarnadóttir býður sig fram til embættis forseta Íþrótta- og ólympíusambands Íslands á komandi þingi sambandsins í næsta mánuði.
Olga hefur áratuga reynslu af störfum í íþróttahreyfingunni meðal annars sem framkvæmdastjóri og yfirþjálfari hjá fimleikadeild Selfoss. Í dag er hún framkvæmdastjóri fimleikafélagsins Gerplu og er 2. varaforseti ÍSÍ en hún var kosin í stjórn sambandsins árið 2019.
„Eftir mikla hvatningu frá ýmsum áttum, ígrundun og samtöl við fjölbreyttan hóp hef ég ákveðið að bjóða mig fram í þetta mikilvæga embætti. Íþróttir hafa mótað mig og gefið mér ómetanleg tækifæri til að vaxa og þroskast sem manneskja og leiðtogi,“ segir Olga í tilkynningu sinni í dag.
„Ég er tilbúin að leiða íþróttahreyfinguna með krafti og metnaði. Framboð mitt byggir á áratuga reynslu á öllum sviðum innan hreyfingarinnar, og langar mig að halda áfram að leggja mitt af mörkum í þágu íþróttanna, fólksins og framtíðar íþróttahreyfingarinnar.
Framundan eru spennandi verkefni og tækifæri til eflingar og nýsköpunar. Ég hlakka til að vinna áfram með því sterka, samhenta og ómetanlega samfélagi sem heldur íslensku íþróttalífi gangandi,“ segir Olga ennfremur.
Þess má geta að lesendur Sunnlenska fréttablaðsins og sunnlenska.is kusu Olgu Sunnlending ársins 2011.