Selfyssingurinn Olga Bjarnadóttir var kosin í framkvæmdastjórn ÍSÍ í fyrsta sinn á 74. Íþróttaþingi Íþrótta– og Ólympíusambands Íslands sem lauk í dag í Reykjavík.
Tíu einstaklingar voru í framboði til sjö sæta í stjórn ÍSÍ. Gunnar Bragason frá Hellu var endurkjörinn og því eru þrír Sunnlendingar í nýju stjórninni en Selfyssingurinn Þráinn Hafsteinsson var kosinn til fjögurra ára á íþróttaþingi 2017. Meðal nýrra stjórnarmanna er einnig Reykvíkingurinn Knútur G. Hauksson en hann er formaður Golfklúbbs Öndverðarness.
Þess má geta að mjög fáir Sunnlendingar hafa átt sæti í stjórn ÍSÍ frá upphafi. Auk Gunnars, Þráins og Olgu eru það þau Sigurður Greipsson, Guðmundur Kr. Jónsson, Unnur Stefánsdóttir og Engilbert Olgeirsson.