Hvergerðingurinn ungi og efnilegi, Óliver Þorkelsson, er genginn í raðir Selfyssinga frá hollenska liðinu De Graafschap en þar var hann á láni frá Hamri í Hveragerði.
Óliver er fæddur árið 2005 og spilar sem miðjumaður. Hann er þó alls ekki ókunnugur Selfossbúningnum því hann hefur æft og spilað með yngri flokkum Selfoss í gegnum tíðina og þótt standa sig afar vel. Óliver var til dæmis lykilmaður í liði 3. flokks Selfoss/Hamars/Ægis sem varð bikarmeistari á síðasta tímabili.
„Ég er mjög ánægður með það að vera kominn á Selfoss og er spenntur fyrir því sem er í gangi hjá félaginu. Aðstæðurnar gætu í raun ekki verið betri og allt í kringum félagið er fyrsta flokks,“ sagði Óliver við undirskriftina.