Bandaríkjamaðurinn Erik Olson hefur verið ráðinn yfirþjálfari Körfuknattleiksfélags FSu til tveggja ára.
Olson, sem er 26 ára gamall, tekur við starfinu af Kjartani Atla Kjartanssyni sem lét af starfanum að lokinni síðustu leiktíð. Karfan.is greinir frá þessu.
Olson á ekki langt að sækja þjálfunina en faðir hans hefur þjálfað í NCAA deildinni í fyrstu, annarri og þriðju deild bandaríska háskólaboltans. Sjálfur lék Olson í fjögur ár með Linfield College en hefur einnig leikið í Skotlandi, Þýskalandi og nú nýverið í Ástralíu.
„Eftir að hafa unnið með mörgum góðum þjálfurum sem leikmaður var ég kominn á þann stað að ég hafði áhuga á að vinna með ungum leikmönnum. Þegar FSu hafði samband og bauð mér að taka við akademíunni og vinna með ungum leikmönnum frá degi til dags fannst mér það passa fullkomlega við mín markmið,“ sagði Olson m.a. í samtali við karfan.is.