Ólympíufari og þjálfari stjórnuðu æfingum á Selfossi

Um síðustu helgi voru Jesús Ramal 6. Dan, þjálfari finnska Ólympíulandsliðsins í taekwondo og Suvi Mikkonen sem lenti í 5. sæti á síðustu Ólympíuleikum með æfingabúðir fyrir taekwondóiðkendur á Selfossi.

Æfingarnar fóru fram í sal taekwondódeildar Umf. Selfoss í Baulu og gengu þær út á að bæta tækni og kunnáttu iðkenda. Óhætt er að fullyrða að allir hafi lært mikið af þeim og haft af bæði gagn og gaman.

Mikið var um tækniæfingar en einnig styrktar- og þolæfingar.

Þau Ramal og Mikkonen ferðast mikið og eru mjög eftirsótt af þjálfurum, keppendum og iðkendum um allan heim til að halda æfingabúðir. Það var því svo sannarlega fengur fyrir taekwondóiðkendur á Selfossi að komast í svona gagnlegar og fræðandi æfingabúðir.

Annars eru æfingar hjá deildinni komnar á fullt skrið eftir sumarfrí og iðkendum fjölgar jafnt og þétt í greininni. Framundan er bikarmótaröð TKÍ og svo verða innanfélagsmót og fleira. Einnig verður ýmislegt gert til skemmtunar og uppbyggingar fyrir hópinn.

Fyrri greinFjallkonan fékk frumkvöðla-verðlaunin
Næsta greinVeit einhver hvar þú ert?