Sem kunnugt er tók Hákon Þór Svavarsson frá Skotíþróttafélagi Suðurlands þátt í haglabyssuskotfimi á Ólympíuleikunum í París í sumar og stóð sig með miklum sóma.
Í apríl síðastliðnum ákvað stjórn Verkefnasjóðs HSK að veita Hákoni styrk úr sjóðnum vegna þess frábæra árangurs að hafa verið valinn í Ólympíuhóp ÍSÍ. Á þeim tíma áttu þrettán íþróttamenn sæti í hópnum, en þeir áttu allir raunhæfa möguleika á að tryggja sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum í ár. Stjórn sjóðsins ákvað af þessu tilefni að veita honum 120.000 króna afreksstyrk úr sjóðnum.
Hákon Þór kom við á skrifstofu HSK í síðustu viku til að þakka fyrir styrkinn frá HSK og færði sambandinu að gjöf áletraða mynd af keppendum Íslands á leikunum og derhúfu með merki leikana.
Hákon Þór er fjórtándi íþróttamaðurinn frá aðildarfélagi HSK sem keppir á Ólympíuleikum. Sá fyrsti var Sigfús Sigurðsson, Umf. Selfoss, sem keppti í kúluvarpi í London 1948.