Ómar Valdimarsson er hættur þjálfun 2. deildarliðs KFR en hann gekk út í gær þegar aðeins átta leikmenn voru mættir á æfingu daginn fyrir tapleikinn gegn HK í kvöld.
,,Ég hef eiginlega nóg annað við tímann að gera en að standa í svona þegar metnaðurinn er ekki meiri,“ sagði Ómar við Fótbolta.net í gær.
,,Þetta var líka uppsafnað og kannski var kominn tími á mig,“ sagði Ómar. ,,Það voru átta á æfingunni í gær og það er að sjálfsögðu hluti af þessu,“ bætti hann við.
,,Það eru mjög margir þarna sem vilja gera vel en þetta er hluti af liðinu. Það þurfa allir að taka þátt og það er ekki nóg að bara hluti af liðinu sinni þessu almennilega.“
Lárus Viðar Stefánsson, fyrirliði liðsins, stýrði liðinu í leiknum gegn HK.