Handknattleikssamband Íslands hefur útnefnt Selfyssinginn Ómar Inga Magnússon handknattleikskarl ársins 2024. Ómar Ingi, sem er 27 ára gamall, er hægri skytta Madgeburg í Þýskalandi og A landsliðs karla.
Ómar Ingi varð Þýskalandsmeistari og bikarmeistari í handknattleik í vor auk þess hann varð þriðji markahæstur í Bundesligunni, efstu deild Þýskalands, á síðustu leiktíð. Magdeburg komst einnig í Final4, úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu, með Ómar Inga innanborðs.
Með landsliðinu náði Ómar 10. sæti á EM 2024 í Þýskalandi. Á mótinu skoraði Ómar Ingi 19 mörk. Einnig lék hann stórt hlutverk með landsliðinu þegar það tryggði sér þátttökurétt í lokakeppni HM 2025 með tveimur öruggum sigrum gegn Eistlandi í maí.
Ómar lék með yngri flokkum Selfoss og spilaði með meistaraflokki bæði á Selfossi og með Val áður hann hélt í atvinnumennsku til Danmerkur 2016. Þar lék hann með bæði Aarhus Håndbold og Aalborg Håndbold áður en hann flutti sig um set og hóf að leika með SC Magdeburg sumarið 2020 hvar hann hefur átt mikilli velgengni að fagna.
Ómar hefur leikið 88 landsleiki og skorað í þeim 317 mörk. Ómar Ingi Magnússon var kjörinn Íþróttamaður ársins 2021 og 2022 auk þess að vera í hópi tíu efstu í kjörinu fyrir árið 2024.