Selfyssingurinn Ómar Ingi Magnússon var besti leikmaður Íslands sem sigraði Portúgal í fyrsta leiknum á Evrópumótinu í handbolta í kvöld, 28-24.
Samkvæmt tölfræðisíðunni HBstatz var Ómar Ingi með einkunnina 7,3 ásamt Aroni Pálmarssyni.
Ísland átti frábæran leik í kvöld, þeir bláu tóku frumkvæðið í leiknum fljótlega og staðan í hálfleik var 14-10. Ísland náði sex marka forskoti snemma í seinni hálfleiknum og sigurinn var ekki í hættu eftir það enda liðsheildin mögnuð.
Bjarki Már Elísson var markahæstur Selfyssinganna með 4 mörk, Ómar Ingi skoraði 3/1 og sendi 4 stoðsendingar og Elvar Örn Jónsson skoraði 2 mörk en Elvar var fremstur í flokki í vörninni með 7 löglegar stöðvanir.
Janus Daði Smárason kom ekki við sögu í leiknum og Teitur Örn Einarsson var einn fjögurra leikmanna sem ekki voru í leikmannahópnum í kvöld.
Ísland mætir Hollandi í næsta leik á sunnudaginn.