Ómar Ingi Magnússon var besti maður Íslands sem vann Svartfjallaland örugglega í milliriðli EM í handbolta í dag, 24-34.
Sigur Íslands var aldrei í hættu en staðan í hálfleik var 17-8. Bjarki Már Elísson og Elvar Örn Jónsson sneru aftur eftir kórónuveirusmit og þeir stóðu sannarlega fyrir sínu í dag.
Ómar Ingi var frábær í vörn og sókn og fékk einkunnina 10 hjá tölfræðivefnum HBStatz. Ómar var markahæstur Íslendinga með 11/5 mörk og 6 stoðsendingar. Bjarki Már var með 9,9 í einkunn í sókninni og heildareinkunnina 7,8 en hann var næst markahæstur með 8 mörk og 100% skotnýtingu. Þar á eftir kom Elvar Örn með 6,8 í einkunn en hann var drjúgur bæði í sókn og vörn, skoraði 2 mörk og var með fjórar löglegar stöðvanir í vörninni.
Teitur Örn Einarsson kom inná í lokin og nýtti sínar mínútur mjög vel, skoraði eitt glæsilegt mark og var með þrjár löglegar stöðvanir í vörninni.
Sunnlendingum í landsliðinu hefur fjölgað síðustu daga en Darri Aronsson-og-Huldu Bjarnadóttur frá Selfossi og Skeiðamaðurinn Bjarni Ófeigur Valdimarsson frá Fjalli eru báðir komnir til Búdapest. Darri spilaði annan leikinn sinn í dag og skoraði eitt mark en Bjarni Ófeigur var utan hóps í dag.
Örlög Íslands ráðast í kvöld, eftir leik Danmerkur og Frakklands, en annað hvort mun liðið fara í undanúrslitin eða spila um 5. sætið.
Fyrsta 10-an í aðaleinkunn kom í hús í dag hjá Íslandi 💥
Ekkert skritið þar sem Ómar Ingi stútfyllti stat sheet-ið á báðum endum vallarins 📊#emruv #ehfeuro2022 pic.twitter.com/Fm2zd4mne5— HBStatz (@HBSstatz) January 26, 2022