Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfoss, var ekki sáttur eftir 2-1 tap gegn Val að Hlíðarenda í kvöld í Pepsi-deild karla. Fjórða leikinn í röð komst Selfoss í 1-0.
„Við töpuðum þessu fyrir eigin klaufaskap með vægast sagt mjög ódýrum mörkum. Í fyrra markinu mistekst okkur að koma boltanum í burtu og síðan seljum við okkur á vondum stað og gleymum að dekka. Það er bara ekki í boði gegn liði eins og Val. Við getum sjálfum okkur kennt um hvernig fór og ég er orðinn býsna þreyttur á að tapa 2-1,“ sagði Guðmundur í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Fjórða deildarleikinn í röð komust Selfyssingar í 1-0 en tapa svo niður forystunni. Þjálfarinn hafði ekki svör á reiðum höndum hvað veldur því. „Ekki nóg með að við missum niður forystuna heldur gerist það mjög fljótlega eftir að við komumst yfir. Menn virðast missa einbeitinguna við það að skora mark og það er eitthvað sem við þurfum að skoða. Sjáum til hvort við verðum ekki búnir að laga það fyrir næsta leik,“ segir þjálfarinn sem sá þó nokkra ljósa punkta í leiknum í kvöld.
„Það vantaði ekki að menn voru að leggja sig fram og reyna en við tókum of margar rangar ákvarðanir. Við gerðum afdrifarík mistök sem kosta okkur stig hér í dag og við erum auðvitað hundsvekktir með það,“ sagði Guðmundur að lokum.