Selfyssingar eru skrefi nær úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta eftir frábæran sigur á FH í leik þrjú í kvöld, 31-29. Staðan er nú 2-1 og Selfoss þarf einn sigur til viðbótar.
„Húsið var orðið fullt klukkutíma fyrir leik og ég verð að segja að orkan og handboltinn sem við sýndum, sérstaklega fyrstu 25 mínúturnar, þetta var alvöru. Mér fannst þetta sanngjarn sigur. Nú er bara endurnæring og ætli við kíkjum ekki eitthvað í lyftingasalinn. Svo eru það bara æfingar á fimmtudag og föstudag og næsti leikur á laugardag,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, eftir leik.
Selfyssingar voru hreint út sagt stórkostlegir í upphafi leiks og náðu sex marka forskoti, 12-6. Þá vöknuðu gestirnir upp við vondan draum, skoruðu þrjú mörk í röð og komu sér aftur inn í leikinn.
Staðan var 15-12 í leikhléi en FH hafði jafnað 20-20 áður en seinni hálfleikur var hálfnaður. Selfyssingar létu það ekki á sig fá, FH komst ekki yfir og heimamenn höfðu frumkvæðið allt til leiksloka.
Einar Sverrisson var frábær að vanda og skoraði 11 mörk þriðja leikinn í röð. Haukur Þrastarson skoraði 6 og fór mikinn í vörninni, Atli Ævar Ingólfsson 5, Hergeir Grímsson 4, Elvar Örn Jónsson 3 og Teitur Örn Einarsson 2.
Sölvi Ólafsson varði 16/1 skot í marki Selfoss og átti magnaðan leik. Helgi Hlynsson kom inná undir lokin og varði vítaskot á ögurstundu.
Fjórði leikur liðanna verður í Kaplakrika á laugardagskvöld.