Örn Þrastarson hefur verið ráðinn íþróttastjóri handknattleiksdeildar Umf. Selfoss. Starfið var auglýst í vor og barst fjöldi umsókna.
Staða íþróttastjóra er ný innan deildarinnar og tekur yfir allt faglegt starf hennar ásamt yfirumsjón með þjálfun yngri flokka félagsins og stjórn handknattleiksakademíu deildarinnar.
Örn þarf varla að kynna, en hann er öllum hnútum kunnur í félaginu, enda hefur komið víða við í starfinu undanfarin ár í þjálfun og fleira. Hann hefur meðal annars þjálfað yngri flokka félagsins, verið aðalþjálfari meistaraflokks kvenna í fjögur ár, aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla undanfarin tvö ár og haft umsjón með handknattleiksakademíunni.
Í tilkynningu frá Selfyssingum er umsækjendum þakkað fyrir áhugann. Stjórn og unglingaráð deildarinnar eru ánægð með ráðninguna og vonast til að hún muni efla faglegt starf deildarinnar til langs tíma.