Hamar og Selfoss unnu örugga sigra í 1. deild karla í körfuknattleik í kvöld.
Selfoss fékk Snæfell í heimsókn og eftir jafnan 1. leikhluta tóku Selfyssingar framúr og leiddu 42-31 í leikhléi. Snæfellingar minnkuðu muninn eftir leikhlé en Selfyssingar voru sterkari á lokakaflanum og unnu sanngjarnan sigur, 75-59.
Rhys Sundimalt var stigahæstur hjá Selfossi með 14 srig, Kristijan Vladovic skoraði 13 og það gerði Christian Cunningham líka auk þess að rífa niður 21 frákast. Hann var langöflugastur Selfyssinga í kvöld. Maciek Klimaszewski er kominn aftur út á gólfið og hanns koraði 10 stig og tók 6 fráköst.
Í Hveragerði tók Hamar á móti Álftanesi þar sem Hvergerðingar unnu stóran sigur. Þeir byrjuðu reyndar ekki vel en komu af krafti inn í leikinn í 2. leikhluta og leiddu 43-32 í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var einstefna þar sem Hvergerðingar skoruðu grimmt og leiknum lauk með 104-70 sigri þeirra.
Everage Richardson skoraði 34 stig fyrir Hamar og tók 8 fráköst. Toni Jelenkovic skoraði 16 stig og sendi 7 stoðsendingar, Pálmi Geir Jónsson skoraði 11 stig og Björn Ásgeir Ásgeirsson 10.
Hamar er með fullt hús stiga eftir tvo leiki og er í 2. sæti deildarinnar á eftir Breiðabliki en Selfoss var að vinna sinn fyrsta sigur og er í 6. sæti deildarinnar.