Öruggt á SS vellinum – Uppsveitir sóttu stig vestur

Uppsveitamenn fögnuðu stiginu vel á Ísafirði. Ljósmynd/ÍBU

Línur eru orðnar mjög skýrar í B-riðli 5. deildar karla í knattspyrnu þar sem KFR vann sigur í sínum leik í dag á meðan Uppsveitir gerðu jafntefli.

KFR fékk Reyni Hellissandi í heimsókn á SS-völlinn á Hvolsvelli og Rangæingar gerðu út um leikinn á fyrsta hálftímanum. Bjarni Þorvaldsson kom þeim yfir á 8. mínútu og fimm mínútum síðar skoruðu Reynismenn sjálfsmark. Í kjölfarið fylgdu mörk frá Þórbergi Agli Yngvasyni og Hjörvari Sigurðssyni og staðan var 4-0 í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var tíðindaminni en á síðasta korterinu bættu Gísli Ísar Úlfarsson og Helgi Valur Smárason við mörkum og lokatölur urðu 6-0.

Uppsveitamenn fóru í mikla frægðarferð vestur á Ísafjörð með þrettán manna hóp þar sem þeir heimsóttu Hörð. Þeir byrjuðu frábærlega og Björn Mikael Karelsson og George Razvan komu ÍBU í 0-2 á fyrsta korterinu. Harðverjar minnkuðu muninn úr vítaspyrnu sem Gústaf Sæland var hársbreidd frá því að verja og áður en flautað var til hálfleiks hafði Hörður skorað aftur og staðan því 2-2. Uppsveitamenn lögðu líf og sál í seinni hálfleikinn og vörðust af krafti með mann leiksins, Gústaf, á milli stanganna og héldu það út. Lokatölur 2-2 og stórt stig í húsi hjá Uppsveitamönnum.

Staðan í B-riðlinum er þannig að KFR er í 3. sæti með 29 stig og fer ekki í úrslitakeppnina. Uppsveitir eru í 6. sæti með 14 stig.

Fyrri greinSjálfboðaliðar í Alviðru læra að steikja kleinur
Næsta greinRagnarsmótið hefst á mánudag