Þór og Grindavík sitja á toppi Domino's-deildar karla í körfubolta með 20 stig eftir leiki kvöldsins. Þór vann öruggan sigur á ÍR í kvöld, 87-70.
Þórsarar tóku forystuna með fyrstu körfu leiksins og leiddu allan leikinn. Staðan að loknum 1. leikhluta var 24-13 en ÍR-ingar minnkuðu muninn í þrjú stig um miðjan 2. leikhluta, 26-23. Þá skoruðu Þórsarar tólf stig í röð og staðan í hálfleik var 38-25.
ÍR-ingar mættu mun stemmdari inn í seinni hálfleikinn, náðu 3-13 áhlaupi og minnkuðu muninn í 41-38. Þá settu Þórsarar aftur í gírinn og náðu tólf stiga forskoti undir lok leikhlutans, 59-47.
Í síðasta fjórðungnum héldu Þórsarar ÍR-ingum í skefjum og gestirnir náðu ekki að ógna sigri Þórs.
Benjamin Curtis Smith skoraði 26 stig fyrir Þór, David Bernard Jackson skoraði 18 stig og tók 12 fráköst, Guðmundur Jónsson skoraði 15 stig og Darrell Flake 14.