Hamar og KFR skildu jöfn, 2-2, á Selfossvelli í Lengjubikar karla í knattspyrnu í dag. Ægir vann öruggan 4-1 sigur á Dalvík/Reyni.
Hamar og KFR mættust í hörkuleik á Selfossvelli. Rangæingar voru skrefi á undan framan af leiknum og Andri Freyr Björnsson kom þeim í 1-0 áður en Logi Geir Þorláksson jafnaði fyrir Hamar. Almir Cosic kom KFR í 2-1 en skömmu síðar jafnaði Tómas Hassing fyrir Hamar og staðan var 2-2 í hálfleik.
Baráttan hélt áfram í síðari hálfleik og bæði lið áttu ágætar sóknir. Rangæingar voru ívið sprækari allt þar til Reyni Óskarssyni var vísað af velli um miðjan síðari hálfleik, fyrir að sparka aftan í mótherja. Eftir rauða spjaldið sóttu Hvergerðingar í sig veðrið en hvorugu liðinu tókst að bæta við marki.
Þetta var fyrsta stig Hamars í Lengjubikarnum í vor en þeir luku keppni á botni riðilsins. KFR er einu sæti ofar með 4 stig.
Á Leiknisvelli í Breiðholti komust Ægismenn yfir í fyrri hálfleik þegar Darko Matejic skallaði boltann í netið af stuttu færi eftir góða sendingu frá Aroni Inga Davíðssyni. Dalvíkingar jöfnuðu síðan metin þegar Ágúst Freyr Hallsson varð fyrir því óláni að skalla hornspyrnu í eigið net.
Dalvíkingar fengu svo vítaspyrnu eftir að Fannar Davíðsson átti að hafa handleikið boltann í vítateignum. Ægismenn voru ósáttir við dóminn en Andri Þór Arnarson gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnuna. 1-1 í hálfleik.
Ægir var sterkari í síðari hálfleik og Ágúst Freyr skoraði tvívegis áður en Aron Ingi Davíðsson innsiglaði öruggan sigur með marki eftir góðan undirbúning frá stormsenternum Jóni Reyni Sveinssyni. Lokatölur 4-1 og Ægismenn komust þar með í toppsæti riðilsins um stundarsakir.