Öruggt hjá Þórsurum í Borgarnesi

Þór Þorlákshöfn vann öruggan sigur á Skallagrími í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld. Þórsarar rifu sig í gang í 3. leikhluta og unnu að lokum 83-101 sigur.

Fyrri hálfleikur var jafn en Þór leiddi í hálfleik, 41-43. Þórsarar gerðu svo út um leikinn í 3. leikhluta þar sem þeir mættu mjög ákveðnir til leiks. Þór hóf 3. leikhluta á 2-14 áhlaupi og breytti stöðunni í 43-57. Þórsarar létu kné fylgja kviði, spiluðu fína vörn og fóru á kostum í sókninni svo að munurinn var orðinn 21 stig að 3. leikhluta loknum, 56-77. Skallagrímur minnkaði muninn í tíu stig þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir en nær komust Borgnesingar ekki og Þórsarar keyrðu kátir heim með tvö stig í töskunni.

Ragnar Nathanaelsson steig upp í kvöld og var besti maður vallarins með 25 stig, 13 fráköst og 3 varin skot. Nemanja Sovic skoraði 23 stig, Tómas Heiðar Tómasson 20, Mike Cook Jr. 19, Emil Karel Einarsson og Baldur Þór Ragnarsson 6 og Jón Jökull Þráinsson 2.

Þórsarar eru í 5. sæti deildarinnar með 20 stig þegar fjórar umferðir eru eftir af deildarkeppninni.

Fyrri greinGríðarlega mikilvæg stig í húsi
Næsta greinÁrborg fær aðeins 23 milljónir króna vegna uppbyggingar íþróttamannvirkja