Ægir vann öruggan sigur á toppliði Vængja Júpíters í B-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í kvöld.
Þetta var síðasti leikur Ægis í riðlinum og fóru þeir í toppsætið með sigrinum, uppfyrir Vængina. Liðin fyrir neðan eiga einn til tvo leiki til góða á Ægi og ólíklegt að þeir haldi toppsætinu til loka.
Það var boðið upp á markaveislu í kvöld þar sem Gunnar Óli Björgvinsson var í miklu stuði og skoraði þrennu fyrir Ægi. Staðan var 0-2 í hálfleik en Vængirnir minnkuðu muninn um miðjan seinni hálfleikinn. Gunnar Óli og Brynjólfur Þór Eyþórsson innsigluðu hins vegar 1-4 sigur Ægis, sem spiluðu vel í kvöld.
Í gærkvöldi gerðu KFR og Álftanes 2-2 jafntefli í C-deildinni þegar þau mættust á Bessastaðavelli í gærkvöldi. Trausti Rafn Björnsson skoraði fyrir KFR í fyrri hálfleik og Helgi Valur Smárason bætti við marki á 53. mínútu. Álftanes skoraði hins vegar tvívegis á síðustu tuttugu mínútunum og jafnaði leikinn. Þetta var fyrsti leikur KFR í riðlinum og er liðið í 4. sæti með 1 stig.