Árborg vann öruggan sigur á Hvíta riddaranum í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag. Ægismenn töpuðu hins vegar gegn Álftanesi.
Árborgarar höfðu töglin og hagldirnar í leiknum gegn Hvíta riddaranum, spiluðu Sikileyjarvörn og fjölbreyttan sóknarleik. Kjartan Atli Kjartansson kom Árborg í 0-1 á 31. mínútu og Hartmann Antonsson bætti öðru við á 39. mínútu. Staðan var 0-2 í hálfleik.
Hartmann bætti öðru marki sínu við á 56. mínútu og Óskar Guðjónsson kom Árborg í 0-4 á 63. mínútu með glæsilegu marki. Heimamenn minnkuðu muninn í 1-4 á 80. mínútu en Kjartan Atli skoraði fimmta mark Árborgar mínútu síðar og þar við sat.
Ægismenn mættu Álftanesi á Leiknisvelli og eftir átta mínútna leik var staðan orðin 2-0 fyrir Álftnesingum. Þar við sat þrátt fyrir ágætar tilraunir beggja liða.
Með sigrinum fór Árborg á toppinn í riðli 1 en Ægismenn eru í 4. sæti í riðli 4.