Öruggt hjá Árborg

Árborg lagði Sindra í lokaumferð 3. deildar karla, 3-1 á Selfossvelli í dag.

Sindramenn mættu betur stemmdir í leikinn enda þurftu þeir á sigri að halda til að komast í úrslitakeppnina. Sindri var meira með boltann í fyrri hálfleik og fengu nokkur ágæt færi en Einar Andri Einarsson var vel á verði í marki Árborgar. Á markamínútunni, þeirri 43., sendi Theodór Guðmundsson boltann innfyrir á Guðmund Ármann Böðvarsson sem kom Árborg yfir með 18. deildarmarki sínu í sumar. Staðan var 1-0 í hálfleik.

Síðari hálfleikur var opnari og liðin skiptust á að sækja. Gestirnir jöfnuðu með marki úr vítaspyrnu á 57. mínútu eftir að Einar markvörður hafði brotið klaufalega af sér í teignum. Staðan var þó aðeins jöfn í tvær mínútur því Guðbergur Baldursson skallaði boltann í netið á 59. mínútu eftir frábæra aukaspyrnu Hallgríms Jóhannssonar.

Sindramenn reyndu allt hvað af tók að bæta við mörkum undir lok leiks en Árborgarvörnin hélt og Guðmundur Garðar Sigfússon skoraði þriðja mark Árborgar eftir skyndisókn á síðustu mínútu leiksins.

Árborg vann öruggan sigur í A-riðli 3. deildar, með 37 stig og markatöluna 42-7. Mótherji liðsins í 8-liða úrslitum verður KFS og er fyrri leikur liðanna í Vestmannaeyjum nk. laugardag.

Fyrri greinRautt á Djurovic í tapleik Ægis
Næsta greinMikilvæg stig Hamars