Öruggt hjá Hamri gegn ÍA

Hamar vann nokkuð öruggan sigur gegn ÍA í viðureign liðanna í 1. deild karla í körfubolta í Hveragerði í kvöld. Lokatölur voru 92-80.

Hamar komst í 12-3 og leiddi 27-18 að loknum 1. leikhluta. Skagamenn svöruðu fyrir sig í 2. leikhluta og jöfnuðu síðan, 47-47, í upphafi síðari hálfleiks.

Hamar náði forystunni aftur en Skagamenn önduðu niður um hálsmálið á Hvergerðingum út 3. leikhluta. Heimamenn náðu undirtökunum í síðasta fjórðungnum og gerðu út um leikinn með 13-2 áhlaupi um miðjan leikhlutann þar sem staðan var orðin 86-72 þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum.

Jerry Lewis Hollis átti sannkallaðan stórleik fyrir Hamar í kvöld, skoraði 35 stig, tók 23 fráköst og var með 50 í framlag. Örn Sigurðarson skoraði 25 stig og tók 10 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði 11 og Ragnar Á. Nathanaelsson 8 auk þess að taka 18 fráköst.

Hamarsmenn eru því enn ósigraðir í deildinni, líkt og Valur, en liðin hafa 10 stig í 1. og 2. sæti.

Fyrri greinÓvænt tap í Sandgerði
Næsta greinJólabingó á Borg