Öruggt hjá Hamri gegn Kríu

Hamar vann góðan 3-0 sigur á Kríu þegar liðin mættust á Grýluvelli í kvöld í 4. deild karla í knattspyrnu.

Leikurinn fór fram í roki og rigningu og sóttu Kríumenn undan vindi í fyrri hálfleik. Þeir fengu betri færi í fyrri hálfleik og áttu meðal annars sláarskot. Hamarsmenn fengu ekki teljandi færi fyrr en á 43. mínútu að Liam Killa tók létt þríhyrningsspil í gegnum vörn Kríu og skoraði með góðu skoti af markteigshorninu, 1-0 í hálfleik.

Hamarsmenn voru sprækari í seinni hálfleik, með vindinn í bakið og Tómas Hassing jók forskotið í 2-0 á 59. mínútu. Páll Pálmason innsiglaði síðan 3-0 sigur með marki í uppbótartíma.

Hamar er í 2. sæti D-riðilsins með 7 stig eftir leiki kvöldsins, en KH er í toppsætinu með 9 stig, að loknum þremur umferðum.

Fyrri greinSamstarfssamningar OR og Set undirritaðir
Næsta greinNáði ekki tveimur farþegum