Keppni í Domino's-deild kvenna í körfubolta hófst í kvöld. Hamar tók á móti Njarðvík og vann öruggan sigur, 77-61.
Hamarskonur léku á alls oddi í 1. leikhluta, skoruðu sex fyrstu stigin í leiknum og komust fljótlega í 11-1. Staðan var 22-7 að loknum 1. leikhluta.
En eins og fyrsti fjórðungurinn leit vel út þá var annar snöggtum verri hjá Hvergerðingum, sérstaklega varnarlega, þar sem Njarðvíkingar skoruðu auðveld stig trekk í trekk. Munurinn var fjórtán stig í hálfleik, 47-33.
Leikurinn var í járnum í upphafi síðari hálfleiks en síðustu fimm mínúturnar í 3. leikhluta gerði Hamar endanlega út um leikinn með 16-3 áhlaupi þar sem þær breyttu stöðunni úr 53-42 í 69-45.
Síðasti leikhlutinn var formsatriði og það sást á Hvergerðingum sem höfðu einbeitinguna ekki með sér í liði. Njarðvík vann síðasta leikhlutann 8-16 en Njarðvíkingar skoruðu 11 síðustu stigin í leiknum.
Di’Amber Johnson var besti leikmaður vallarins, skoraði 20 stig, tók 7 fráköst og sendi 8 stoðsendingar auk þess að stela 5 boltum, Fanney Lind Guðmundsdóttir skoraði 15 stig og tók 15 fráköst, Íris Ásgeirsdóttir skoraði 14 stig og stal 6 boltum, Dagný Lísa Davíðsdóttir skoraði 8 stig, Jenný Harðardóttir og Sóley Guðgeirsdóttir 7 og Marín Laufey Davíðsdóttir 6.