Selfoss vann öruggan sigur á KR þegar Vesturbæingar komu í heimsókn í Vallaskóla í 1. deild karla í handbolta í kvöld.
Selfyssingar höfðu tveggja marka forystu í hálfleik, 12-10 en duttu svo í fínan gír í seinni hálfleik. Forskot Selfyssinga jókst jafnt og þétt þegar leið á seinni hálfleikinn en lokatölur urðu 24-18.
Matthias Örn Halldórsson var markahæstur Selfyssinga með 5 mörk, Hörður Másson og Andri Már Sveinsson skoruðu 4, Hergeir Grímsson og Daníel Róbertsson 3, Egill Eiríksson 2 og þeir Guðjón Ágústsson, Egidijus Mikalonis og Jóhann Erlingsson skoruðu allir 1 mark.
Sebastian Alexandersson átti gott kvöld í markinu, varði 23 skot og var með 59% markvörslu.
Nú er tveimur þriðju hlutum deildarkeppninnar lokið en þriðja umferðin hefst í byrjun febrúar. Næsti leikur Selfoss er gegn Fjölni á útivelli föstudaginn 13. febrúar.