Selfoss vann öruggan 33-18 sigur á Fjölni í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Leikurinn fer seint í sögubækurnar fyrir skemmtilegheit.
Selfyssingar voru á hælunum í upphafi leiks og fyrr en varði var staðan orðin 2-5. Þá kom 7-1 kafli hjá Selfyssingum þar sem Sverrir Andrésson var að verja vel í markinu og þeir vínrauðu breyttu stöðunni í 9-6. Fjölnir minnkaði muninn í 11-10 en þá skildu leiðir endanlega og staðan í hálfleik var 15-11.
Selfossliðið gerði það sem þurfti í seinni hálfleik, náði fljótlega tíu marka forskoti, 23-13, og hélst munurinn í tíu mörkum allt þar til á síðustu fimm mínútunum þegar ekkert gekk í sókninni hjá Fjölni og Selfoss jók forskotið um fimm mörk til viðbótar. Síðasta markið var einkar glæsilegt sirkusmark hjá Einari Sverrissyni um leið og lokaflautan gall.
Heimamenn hefðu getað klárað leikinn í fyrri hálfleik en þeir hefðu litið mjög illa út ef andstæðingurinn hefði verið sterkari. Markvörður Fjölnis kom einnig í veg fyrir enn stærra tap sinna manna því hann átti margar ágætar vörslur í leiknum.
Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 10/3 mörk, Matthías Halldórsson skoraði 6, Hörður Másson 5, Einar Pétur Pétursson 4 og þeir Sigurður Már Guðmundsson, Ómar Vignir Helgason, Gunnar Ingi Jónsson og Andri Már Sveinsson skoruðu allir 2 mörk.
Markmenn Selfoss stóðu sig vel. Sverrir Andrésson átti fínan leik í markinu, varði 15 skot og var með 51,7% markvörslu og Helgi Hlynsson varði 4 skot á síðasta korterinu og var með 50% markvörslu.