Ragnarsmótið í handbolta kvenna hófst í kvöld í íþróttahúsi Vallaskóla á Selfossi með tveimur leikjum. Selfoss vann öruggan sigur á Fylki.
Selfoss lagði Fylki 32-25 en staðan var 15-13 í hálfleik. Adina Ghidoarca var markahæst Selfyssinga með 8 mörk, Carmen Palamariu og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoruðu 6 mörk, Perla Ruth Albertsdóttir og Kristrún Steinþórsdóttir 4 og þær Elva Óskarsdóttir, Margrét Jónsdóttir, Arna Kristín Einarsdóttir og Tinna Soffía Traustadóttir skoruðu allar eitt mark.
Í hinum leiknum vann Valur Hauka 29-21. Staðan var 18-9 í hálfleik, Val í vil. Diana Šatkauskaitė var markahæst hjá Val með 6 mörk en hjá Haukum skoruðu María Pereira, Jóna S. Halldórsdóttir og Ragnheiður Ragnarsdóttir allar fjögur mörk.
Á morgun mætast Selfoss og Haukar kl. 18:00 og Valur og Fylkir kl. 20:00.