Selfyssingar luku keppni í Inkasso-deildinni í knattspyrnu í dag með sannfærandi sigri á Huginn á JÁVERK-vellinum, 4-1.
Þar með féll Huginn niður í 2. deild, eftir ótrúlega sveiflu í lokaumferðinni. Leiknir Fáskrúðsfirði var í fallsæti í upphafi dags en Leiknismenn gátu náð Huginn að stigum auk þess sem þeir þurftu að vinna upp sjö marka markamismun.
Það tókst því Huginn tapaði 4-1 og Leiknir lagði HK á útivelli í ótrúlegum leik, 2-7.
Huginn byrjaði betur í leiknum í dag og Stefán Ómar Magnússon kom þeim yfir á 7. mínútu. Þá tóku Selfyssingar við sér og Ingi Rafn Ingibergsson jafnaði á 26. mínútu með skallamarki eftir góða sendingu frá JC Mack.
Þeir félagar voru aftur á ferðinni tíu mínútum síðar, JC sendi fyrir markið og þar þvældist boltinn á milli manna í vítateignum yfir til Inga Rafns sem skoraði auðveldlega.
JC var ekki hættur því hann komst inn í sendingu hjá Huginsmönnum á lokamínútu fyrri hálfleiks, lék á varnarmann og skoraði af öryggi.
Seinni hálfleikurinn var mun rólegri en JC kórónaði góðan leik sinn á lokamínútunni með því að bæta við fjórða marki Selfoss og lokatölur 4-1.
Selfyssingar höfnuðu í 8. sæti deildarinnar með 28 stig. Liðið vann sex leiki og gerði tíu jafntefli en sigurinn í dag var fyrsti sigur liðsins síðan 4. ágúst.
„Þetta var einn af fáum leikjum sem við unnum örugglega í sumar,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik. Gunnar var nokkuð sáttur við sumarið. „Við erum að ná tölvert mikið af markmiðunum okkar. Við erum að byggja liðið upp, við erum að spila mikið á heimamönnum og erum að styrkja innviði klúbbsins mjög mikið. Við náum 28 stigum, við erum með markatölu í plús sem hefur ekki gerst mjög lengi og erum að vinna fleiri leiki en undanfarið.“