Selfoss vann öruggan heimasigur á KR í 1. deild karla í handbolta í kvöld en Mílan tapaði naumlega á útivelli gegn ÍH.
Selfoss átti ekki í miklum vandræðum með að landa sigri gegn KR. Leikurinn var í járnum fyrsta korterið en síðan náðu Selfyssingar þriggja marka forskoti, 10-7, og leiddu örugglega í hálfleik, 14-9.
Sigur Selfoss var aldrei í hættu í seinni hálfleik og liðið hafði sex til sjö marka forystu lengst af. Lokatölur urðu 26-19.
Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Andri Már Sveinsson skoraði 6, Atli Kristinsson 5, Gunnar Páll Júlíusson 3, Sverrir Pálsson 2 og þeir Hergeir Grímsson, Örn Þrastarson og Rúnar Hjálmarsson skoruðu allir 1 mark.
Helgi Hlynsson varði 13 skot í marki Selfoss og Birkir Fannar Bragason 5.
Mílan bjargaði andlitinu – en tapaði
Í Kaplakrika tók ÍH frumkvæðið í leiknum strax í upphafi og um miðjan fyrri hálfleikinn var staðan orðin 9-3. Ekki batnaði ástandið hjá þeim grænu þegar leið á fyrri hálfleikinn og staðan var 17-8 í hálfleik. Mílan náði hins vegar að snúa blaðinu við í seinni hálfleik og koma sér aftur inn í leikinn. Sverrir Andrésson markvörður lokaði rammanum og á skömmum tíma breyttist staðan úr 20-13 í 20-18. Þegar fimm mínútur voru eftir leiddi ÍH með einu marki, 22-21, en Mílan náði ekki að kreista fram sigur og lokatölur urðu 23-22.
Magnús Már Magnússon var markahæstur hjá Mílunni með 6 mörk, Gunnar Ingi Jónsson skoraði 5, Árni Felix Gíslason 5/1, Sævar Ingi Eiðsson 3 og þeir Egidijus Mikalonis og Hákon Öder Einarsson skoruðu 1 mark hvor.
Sverrir Andrésson var frábær í marki Mílunnar í seinni hálfleik. Hann varði 11 skot og var með 65% markvörslu. Ástgeir Sigmarsson varði 7 skot og var með 29% markvörslu.
Að loknum sextán umferðum er Selfoss í 3. sæti deildarinnar með 26 stig en Mílan er í 5. sæti með 13 stig.