Öruggt hjá Val í Hveragerði

Kvennalið Hamars tapaði stórt þegar liðið tók á móti úrvalsdeildarliði Vals í Lengjubikarnum í körfubolta í kvöld. Lokatölur voru 59-93.

Fyrsti leikhlutinn var jafn en Valur náði góðu forskoti í 2. leikhluta og leiddi í hálfleik, 28-40. Munurinn jókst svo enn frekar í síðari hálfleik en Hamar skoraði 11 stig gegn 26 stigum Vals í lokaleikhlutanum.

Marín Laufey Davíðsdóttir var stigahæst hjá Hamri með 11 stig og 9 fráköst, Íris Ásgeirsdóttir skoraði 9, Dagný Lísa Davíðsdóttir 8, Katrín Eik Össurardóttir og Bjarney Sif Ægisdóttir skoruðu báðar 7 stig, Helga Vala Ingvarsdóttir 6, Adda María Óttarsdóttir, Freyja Fanndal Sigurjónsdóttir og Margrét Hrund Arnarsdóttir skoruðu allar 3 stig og Jenný Harðardóttir 2.

Hjá Val voru tveir fyrrum leikmenn Hamars stigahæstir. Guðbjörg Sverrisdóttir átti stórleik með 23 stig, 13 fráköst og 12 stolna bolta og Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 18 stig.

Næsti leikur Hamars er á laugardag gegn Fjölni á útivelli en liðið tekur svo á móti Haukum á miðvikudaginn í næstu viku.

Fyrri greinÆgir upp í 2. deild
Næsta greinUmferðartafir í Hrunamannavegi