Öruggt og langþráð hjá Hamri

Botnlið Hamars vann langþráðan sigur í Iceland Express deild kvenna í körfubolta þegar liðið fékk Snæfell í heimsókn í kvöld. Lokatölur voru 82-57.

Hamar byrjaði vel í leiknum og komst í 7-0 áður og 14-4. Staðan var 26-17 að loknum 1. leikhluta og Hamar skoraði fyrstu átta stigin í 2. leikhluta og komust þá í 34-17. Staðan var 43-26 í hálfleik.

Hamarskonur voru sterkari í 3. leikhluta og gerðu út um leikinn með því að skora síðustu tíu stigin í leikhlutanum og auka forskotið í 32 stig, 73-41. Snæfell náði 13-2 kafla í upphafi 4. leikhluta en munurinn var orðinn of mikill og Hamarskonur sigldu öruggum sigri í höfn.

Samantha Murphy og Katherine Graham áttu báðar stórleik fyrir Hamar. Murphy skoraði 25 stig og Graham 23 og báðar tóku þær 8 fráköst. Fanney Guðmundsdóttir skoraði 14 stig, Jenný Harðardóttir 9, Marín Davíðsdóttir 6, Íris Ásgeirsdóttir 3 og Álfhildur Þorsteinsdóttir 2.

Hamar er sem fyrr á botni deildarinnar með 6 stig og fyrir ofan eru Fjölnir og Valur með 10 og 12 stig.

Fyrri greinTengivagn valt á Gatnabrún
Næsta greinMótmæla hækkun raforkuverðs