Selfoss vann öruggan sigur á botnliði Tindastóls í 1. deild kvenna í knattspyrnu í kvöld þegar liðin mættust á JÁVERK-vellinum. Lokatölur urðu 4-0.
Selfoss komst yfir snemma leiks þegar Alex Alugas lét vaða af 25 metra færi yfir markvörð gestanna. Það reyndist eina mark fyrri hálfleiks en Selfyssingar stýrðu leiknum og fengu nokkur hálffæri.
Heimakonur mættu svo mun hressari inn í seinni hálfleikinn og hleyptu gestunum ekkert inn í leikinn. Liðið uppskar þrjú mörk sem öll komu eftir hornspyrnur.
Fyrst stangaði Karitas Tómasdóttir boltann í netið á 51. mínútu og átta mínútum síðar skallaði Kristrún Rut Antonsdóttir í stöngina og inn. Selfoss hefði getað bætt við fleiri mörkum en það var ekki fyrr en á 76. mínútu að Brynja Valgeirsdóttir hamraði knöttinn upp í þaknetið á marki Tindastóls.
Selfoss situr áfram í toppsæti deildarinnar, nú með 26 stig, og mætir næst Sindra á erfiðum útivelli á Hornafirði á miðvikudagskvöld.