Öruggur heimasigur Selfyssinga

Hulda Dís Þrastardóttir fær óblíðar móttökur hjá Stjörnuvörninni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann nokkuð öruggan sigur á Stjörnunni-U í Grill 66 deild kvenna í handbolta á Selfossi í kvöld, 25-22.

Selfoss skoraði fyrstu þrjú mörkin í leiknum en Stjarnan jafnaði 4-4 og komst tveimur mörkum yfir í kjölfarið. Selfyssingar létu þetta ekki slá sig út af laginu og náðu forystunni aftur fyrir leikhlé, 12-10.

Það gekk nánast allt upp hjá Selfyssingum í upphafi seinni háflleiks og þær náðu átta marka forskoti á fyrstu tíu mínútunum, 19-11. Þá tóku Stjörnukonur við sér aftur og þær náðu að minnka muninn í tvö mörk þegar tæpar sex mínútur voru eftir af leiknum 23-21. Nær komust gestirnir ekki og Selfoss fagnaði að lokum.

Hulda Dís Þrastardóttir var sterk í vörn og sókn, skoraði 9/2 mörk og sendi 4 stoðsendingar. Tinna Traustadóttir skoraði 6 mörk, Katla María Magnúsdóttir og Rakel Guðjónsdóttir 3 og þær Hólmfríður Arna Steinsdóttir, Agnes Sigurðardóttir, Elín Krista Sigurðardóttir og Sigríður Lilja Sigurðardóttir skoruðu allar 1 mark.

Henriette Østergård varði 7 skot í marki Selfoss og var með 25% markvörslu. Dröfn Sveinsdóttir varði 2 skot og var með 50% markvörslu.

Selfoss er í 3. sæti deildarinnar með 16 stig en Stjarnan-U er í 8. sæti með 7 stig.

Fyrri greinEnginn samdráttur á Selfossi
Næsta greinVinir Elvars halda styrktarpartý