Selfoss vann öruggan sigur á Val-2 í 1. deild karla í handbolta í Set-höllinni Iðu á Selfossi í kvöld, 35-31.
Jafnt var á nánast öllum tölum fyrstu tuttugu mínúturnar en þá náðu Selfyssingar þriggja marka forskoti, 17-14, og staðan í hálfleik var 18-15.
Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn vel og náði sex marka forskoti. Þar lögðu þeir grunninn að sigrinum því þeir héldu öruggu forskoti allt til leiksloka.
Tryggvi Sigurberg Traustason var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Jason Dagur Þórisson skoraði 6, Hannes Höskuldsson 5, Patrekur Þór Öfjörð 4, Sölvi Svavarsson 3, Jónas Karl Gunnlaugsson, Guðjón Baldur Ómarsson og Anton Breki Hjaltason 2 og þeir Elvar Elí Hallgrímsson, Skarphéðinn Steinn Sveinsson, Álvaro Mallols og Valdimar Örn Ingvarsson skoruðu 1 mark hver.
Alexander Hrafnkelsson varði 15 skot í marki Selfoss og Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 7 skot.
Selfyssingar eru í 2. sæti deildarinnar með 10 stig en Valur í 6. sæti með 6 stig.