Íslandsmeistarar Selfoss unnu góðan sigur á KA á útivelli á Akureyri í dag, 26-31.
KA hafði frumkvæðið í upphafi leiks en það var jafnt á flestum tölum í fyrri hálfleik. Bæði lið náðu tveggja marka forskoti á tímabili en allt var í járnum og staðan 13-14 í leikhléi.
Selfyssingar voru betri í seinni hálfleiknum, þeir mættu ákveðnir út úr leikhléinu og náðu fljótlega fimm marka forskoti, 16-21. KA menn áttu engin svör og Selfoss jók muninn mest í sjö mörk, 22-29, en KA skoraði síðustu tvö mörk leiksins og lokatölur urðu 26-31.
Haukur Þrastarson átti frábæran leik fyrir Selfoss, skoraði 11/2 mörk og sendi 6 stoðsendingar. Einar Sverrisson skoraði 5 mörk, Atli Ævar Ingólfsson og Magnús Öder Einarsson 4, Alexander Egan 3, Guðni Ingvarsson 2 og þeir Ísak Gústafsson og Hannes Höskuldsson skoruðu sitt markið hvor.
Alexander Hrafnkelsson var frábær í markinu hjá Selfyssingum, varði 20 skot og sendi 2 stoðsendingar. Alexander var með 45% markvörslu í leiknum.
Selfoss er áfram í 5. sæti deildarinnar, nú með 21 stig, en KA er í 9. sæti með 11 stig.