Öruggur sigur á botnliðinu

Jón Þórarinn Þorsteinsson fór á kostum í markinu hjá Selfyssingum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tók á móti HK2 í 1. deild karla í handbolta í Set-höllinni Iðu á Selfossi í dag. Heimamenn unnu öruggan sigur, 37-27.

Selfoss byrjaði af krafti í leiknum, þeir skoruðu þrjú fyrstu mörkin og komust í kjölfarið í 10-3. Þá dró aftur saman með liðunum, HK2 skoraði fjögur mörk í röð og staðan var 15-11 í hálfleik.

Munurinn hélst svipaður framan af seinni hálfleiknum en um hann miðjan skildi á milli, Selfoss jók forskotið jafnt og þétt og vann að lokum með 10 marka mun.

Álvaro Mallols og Árni Ísleifsson voru markahæstir í liði Selfoss með 6 mörk hvor, Guðjón Baldur Ómarsson og Jason Dagur Þórisson skoruðu 4, Elvar Elí Hallgrímsson og Hákon Garri Gestsson 3, Patrekur Þór Öfjörð, Vilhelm Freyr Steindórsson, Jónas Karl Gunnlaugsson og Anton Breki Hjaltason 2 og þeir Tryggvi Sigurberg Traustason, Valdimar Örn Ingvarsson og markvörðurinn Jón Þórarinn Þorsteinsson skoruðu 1 mark hver.

Jón Þórarinn átti stórleik í marki Selfoss og varði 22 skot og Ísak Kristinn Jónsson varði 1.

Eftir fimm umferðir er Selfoss í 5. sæti deildarinnar með 6 stig en HK2 er á botninum án stiga.

Fyrri greinKarolína Evrópumeistari með kvennaliði Íslands
Næsta greinSvikinn héri að hætti hússins – Ekki lýðræðisveisla